25. febrúar síðastliðin kom frétt í Morgunblaðinu þess efnis að gætt hafi hjartsláttartruflana í hjartanu í Vaðlaheiði og ástæðan hafi verið ástarsorg. Við hér á Rafeyri sem sjáum um hjartað könnumst ekki þessar truflanir en fréttin er skemmtileg. Þessi frétt virðist hafa gefið fólki í ástarsorg hugmynd um hvernig það getur látið tilfinningar sínar í ljós svo tekið sé eftir því. Nú er svo komið að skemmdir hafa verið unnar á hjartanu sem ekki verður búið að laga fyrr en í næstu viku. Þó það kosti okkur einhverja vinnu að gera við hjartað þá er það skemmtileg vinna, útivera og mikil hreyfing sem við teljum ekki eftir okkur að gera. Við finnum til með öllum sem eiga um sárt að binda og vonum að ástarsorgin og aðrir huglægir kvillar hverfi þegar hjartað fer að slá að nýju.
Peruhöldurnar og annar búnaður í hjartanu eru orðin mjög léleg þannig að sérstaka lagni þarf við peruskipti. Stefnt er að því á þessu ári 2012 að skipta út búnaðinum og gera hjartað varanlegt í heiðinni. Þegar búið verður að endurnýja hjartað er áformað að fólk geti á einfaldan hátt í gegnum internetið komið tilfinningum sínum á framfæri og þannig haft áhrif á hjartað.