Það að skila sér heill heim hvern dag er markmið okkar allra og til að það geti orðið þurfum við að halda vöku okkar.
Áherslur Rafeyrar í öryggismálum hafa gengið út á það að vekja starfsmenn til vitundar um mikilvægi öruggra starfshátta og að hver og einn starfsmaður sé hinn eiginlegi „öryggisstjóri“ með ábyrgð á sjálfum sér og þeim sem eru í vinnuumhverfi hans hverju sinni. Það er nátengt að skila góðu verki og að vinna verkið af öryggi. Fátítt er að kvartað sé yfir verkgæðum Rafeyrar og samanstendur starfsmannahópurinn af fjölbreyttum fagmönnum sem leysa sem heild hverja þá þraut sem fyrir hann er lögð.
„Þið megið taka áhættu í starfi ykkar ... EN ... skynsamlega." Má öryggisstjórinn segja þetta? Það er trú okkar að með því að reyna hæfilega á mörk okkar lærum við að þekkja þau og að öllum líkindum útvíkka þau.
Brýnt er að viðhalda fræðslu í öryggis-, heilbrigðis-, umhverfis- og vinnuumhverfismálum og hefur Rafeyri sett sér stefnu í þessum málum. Hins vegar er ekki nóg að útbúa fínt plagg og tefla því fram sem sönnun þess að vera til fyrirmyndar í öryggismálum, við þurfum stöðugt að temja okkur verklag og varúð í samræmi við það.
Rafeyri þakkar þá vegsemd sem viðurkenningunni fylgir og vonar að vera hennar verðug. Verðlaunagripurinn minnir okkur á um leið og hann gleður okkur.