Hjartað sem er á stærð við fótboltavöll og sló í Vaðlaheiðinni gegnt Akureyri síðastliðinn vetur vakti mikla lukku þeirra sem það sáu og er varla hægt að hugsa sér betri byrjun á deginum en að líta yfir í heiði og horfa á hjartað slá.
Nú er komið að því að hefja aftur hjartsláttinn enda farið að rökkva svo að hjartað nýtur sín vel.
Það eru eftirtalin fyrirtæki sem gera það kleift að hjartslættinum er komið af stað á ný: Rafeyri, Becromal, Norðurorka, Reykjafell, Rönning, Ískraft og S.Guðjónsson.
Allir þeir sem njóta þess að horfa á hjartað slá færa þessum fyrirtækjum hjartans þakkir fyrir þetta góða framtak sem gerir það að verkum að við Brosum með hjartanu. Hjartað byrjar að slá á ný á sama tíma og ljósin verða tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi eða rétt fyrir klukkan fjögur á laugardaginn 28. nóvember.
"Hjartað hverfur stundum í sortann en það er hægt að ganga að því vísu að það slær í Vaðlaheiðinni sama á hverju gengur eins og hjartað í brjóstum okkar allra." Þetta eru orð Davíðs Hafsteinssonar tæknistjóra fyrirtækisins Rafeyrar sem á stærstan þátt í að þetta varð að veruleika.
Hér fyrir ofan er fréttatilkynning frá Akureyrarstofu vegna uppkveikingar hjartans.
Við hér á Rafeyri tileinkum kveikinguna minningu Róberts Friðþjófs Sigurðssonar þar sem hann á vísan stað í hjörtum sumra okkar. Blessuð sé hans minning.