Lúxusvandamál er það kallað þegar við höfum svo mikið að gera að ekki finnst tími fyrir verk í eigin þágu.
Þetta vandamál hefur verið viðvarandi hjá Rafeyri nú um alllangt skeið og enn er ærið framundan.
Becromal er stöðugt verkefni þó áfram miði og áætlanir gera ráð fyrir að verksmiðjan verði að fullu komin á skrið fyrir mitt næsta ár. Vel hefur gengið við uppbygginguna þó ekki hafi menn alveg sloppið við skakkaföll en þau eru ekki meiri en við er að búast í svo viðamiklu og stóru verki.
Í ágúst var vígsla IV. áfanga Háskólans á Akureyri en þó hefur verið nokkuð um aukaverk til að fullkomna verkið, hillir undir lok þeirra. Þeir sem komu að þeirri framkvæmd geta verið stoltir af vandvirku verki.
Ríkisútvarpið mun í byrjun desember flytja starfsemi sína hér á Akureyri upp á Háskólasvæðið og hefur verið unnið hörðum höndum að standsetningu húsnæðis sem hýsir þeirra góða starf.
Á Glerártorgi eru flest rými að verða nýtt og nú í haust bættust verslanir Pier og Europrise ásamt Paradísarlandi sem er leiksvæði fyrir krakka á öllum aldri. Rafeyri kom að rafmagnsuppsetningu á öllum þessum stöðum.
Slippverk hafa verið allnokkur og útlit fyrir að áframhald verði þar á.