Portúgalsferð starfsmanna

Föstudaginn 28. september n.k. stígur megnið af starfsmönnum Rafeyrar, ásamt mökum og öðru fylgdarliði, upp í vél Icelandair á Akureyri. Förinni er heitið til sólbakaðrar strandar í Portúgal, Albufeira nánar tiltekið.

Ferðin er frá föstudegi til föstudags og verður þjónusta fyrirtækisins í lágmarki á meðan. Hins vegar verða eftir heima öflugir menn sem munu bregðast við því sem upp á kemur og sinna brýnustu verkunum. Viðskiptamenn okkar eru beðnir um að sýna skilning á að hinn rómaði viðbragðstími Rafeyrar verði ögn hægari um stund.

Í Rafeyrarhópunum eru alls 86 manns en í heild fara um 200 manns í þessu beina flugi frá Akureyri. Ferðaskrifstofa Akureyrar, með Ragnheiði í fararbroddi, hafa haft veg og vanda að undirbúningi ferðarinnar og kunnum við þeim hinar bestu þakkir fyrir.

Sól og sæla er framundan en við vonum að þið sem eruð hér heima hafið það sem allra best þó þið verðið ekki eins tönuð og við sem tökum flugið.