Rafeyri ehf. er alhliða fyrirtæki á sviði rafverktöku.

HVAR SEM ER - HVENÆR SEM ER...

Reynslan sýnir að bilanir gera sjaldan boð á undan sér og eiga sér ekki endilega stað í dagvinnutíma. Því bjóðum við viðskiptavinum okkar upp á þjónustu allan sólarhringinn ef á þarf að halda, allan ársins hring.

Hjá okkur er alltaf einhver á vakt

FÖST VERÐTILBOÐ...

Rafeyri gerir föst verðtilboð í einstök verk, viðskiptavinum að kostnaðarlausu. Hafðu samband við okkur eða komdu og fáðu nánari upplýsingar. Við tökum vel á móti þér.

SKREFINU Á UNDAN...

Eitt af leiðarljósum í starfsemi Rafeyrar er að mikil áhersla er lögð á að starfsmenn fái tækifæri til að vaxa í starfi hjá fyrirtækinu og séu upplýstir um nýjustu tækni og aðferðir, séu helst alltaf skrefinu á undan öðrum. Í því skyni sækjum við fagsýningar, fagráðstefnur og námskeið af miklum móð. Ekki aðeins leiðir þetta til ávinnings fyrir starfsmennina heldur hefur Rafeyri fengið á sig það orð að vera framsækið fyrirtæki með fagmenn sem kunna lausnir á viðfangsefnunum.

RAFEYRI KEMUR VÍÐA VIÐ SÖGU

Það myndi æra óstöðugan ef telja ætti upp öll verkefni Rafeyrar á undanförnum árum. Meðal þeirra stærstu má þó nefna stækkun og endurbætur á Lagarfossvirkjun fyrir RARIK og Landsnet, umfangsmiklar raflagnir í aflþynnuverksmiðju Becromal í Krossanesi við Akureyri, vinnu fyrir Norak ehf. við aðveitustöð sömu verksmiðju, viðamiklar endurbætur á rannsóknarskipunum Neptune og Poseidon, rafkerfi í fjölda hraðfiskitrefjabáta fyrir Seiglu ehf., endurbætur og viðhald rafkerfa auk fjölda annarra verka í tengslum við verkefni Slippsins Akureyri og raflagnir í fjórða áfanga Háskólans á Akureyri.

VIÐ VINNUM MEÐ HJARTANU!

Rafeyri þjónar viðskiptavinum sínum vel og tekur skyldur sínar gagnvart starfsmönnum og eigendum alvarlega. En við búum líka og störfum í samfélagi og lítum svo á að þar höfum við einnig skyldum að gegna. Fyrirtækið hefur stutt við starfsemi ýmissa félaga og samtaka, bæði í góðgerðarmálum og íþrótta- og æskulýðsmálum með stórum og smáum framlögum. Eitt skemmtilegasta samfélagsverkefni Rafeyrar og líklega það sýnilegasta er risastórt, upplýst hjarta sem slær í Vaðlaheiði gegnt Akureyri. Hjartað hefur glatt Eyfirðinga og gesti þeirra og vakið verðskuldaða athygli í tengslum við samstarf fjölmargra um að auka jákvæðni í samfélaginu. Rafeyrarmenn eru stoltir af hjartanu!

HJÁLPAR- OG SKRIFSTOFUTÆKJAVIÐGERÐIR

Rafmagn kemur víða við sögu og fjölhæfni því góður kostur hjá fyrirtækjum sem veita þjónustu á þessu sviði. Rafeyri á í samstarfi við Tryggingastofnun um þjónustu við notendur hjólastóla og annarra hjálpartækja sem felst í allt frá dekkjaviðgerðum upp í flóknar rafeindaviðgerðir.

Rafeyri annast einnig viðgerðir á skrifstofutækjum fyrir vaxandi fjölda fyrirtækja.

Litlu jól Rafeyrar í óvissu

Litlu jól Rafeyrar fóru fram laugardaginn 30. nóvember 2013 og mættu tæplega 70 manns til leiks. 

Farið var út í óvissuna út með Eyjafirði að vestanverðu. Búið var að skipta hópnum upp í fjögur lið og fyrir þeim lágu ýmsar þrautir til að leysa. Í fyrstu var haldið á Hjalteyri þar sem Erlendur Bogason kafari leiddi liðið um salarkynni gömlu verksmiðjanna á staðnum. Sýndi hann myndband frá köfun við strýturnar í Eyjafirði og sagði frá þeim. Sjósund og heiti potturinn í flæðarmálinu bíða betri tíma.
Haldið var í norðurátt og næsti viðkomustaður var Hauganes. Spilað var rútubingó á leiðinni og var bláa liðið einstaklega lunkið í því. Elvar Reykjalín hjá Ektafiski tók á móti okkur að höfðingjasið og gladdi menn og konur með gamanmálum og kúnstum. Starfsmenn kepptu við eigendur Rafeyrar í leik sem má kalla Augabragð og höfðu betur. Rósa sýndi lipur handtök við flökun á vænum þorski og ljóst er að þar er enginn nýgræðingur á ferð. Kræsilegir réttir féllu í góðan jarðveg hjá mannskapnum og svo var keppt í Guinnesdrykkju, vinstri handar skrift, afturábak tali og kroppsogi.
Enn var haldið í norðurátt og Dalvíkin draumabláa sótt heim. Gústi og hans lið tók á móti okkur á veitingastaðnum Við höfnina og kneifuðu menn mjöð og smjöttuðu á kræsingum. Það gleymdist að hópþakka fyrir sig og viljum við hér með koma á framfæri hjartans þökkum fyrir trakteringarnar.
Enn var reynt með sér og nú var hnýtt pelastikk, bönd fléttuð og frönskusnillingar létu ljós sitt skína. Milli munnbita og gúlsopa glímdu menn við Rafeyrarkviss og vann Háborðið þá keppni. Anna Dóra og Sævar voru hvort fyrir sig með sínar pillur á starfsmenn og var Anna Dóra í þetta sinn með þær í bundnu máli og flutti hún stemmuna með undirleik Davíðs. Davíð flutti einnig gamanmál og stjórnaði fjöldasöng. Þá kom Andri Sigurjóns með skrýtlu og sannaði að hann er góður húmoristi. Síðast en ekki síst er rétt að nefna framlag þeirra Heimis og Jónasar sem tóku Sveitina milli sanda og Enska duddu-lagið og að sjálfsögðu með stæl.
74 manna rúta SBA kom svo liðinu á leiðarenda og stóð Rabbi bílstjóri sig með stakri prýði við stjórnvölinn.